Tugþúsundir ferðamanna heimsækja Tenerife árlega, bæði til styttri og lengri dvalar. En hver er í rauninni munurinn á ferðamanni og heimamanni á eyjunni? Ef þú svarar atriðunum á þessum 15 atriða tékklista játandi þá ertu líklega búin/n að vera það lengi á Tenerife að þú getur ekki lengur kallað þig ferðamann.
Þú velur þér frekar sæti í skugganum heldur en í sólinni.
Þú borðar hádegismaturinn í fyrsta lagi klukkan tvö.
Þú stekkur ekki út í sólbað þó sólin skíni skært. Þú ert búin/n að læra að það verður gott veður á morgun og líka hinn og hinn.
Rauðvínið þarf að vera vel kælt svo það sé drekkandi. Þá drekkurðu vínið ekki lengur úr glösum á fæti heldur duga hefðbundin vatnsglös.
Þú ert hætt/ur að tala um vinnuna og pólitík. Umræðurnar snúast í staðinn um hreyfingu, vín, upplifanir og mat.
Þú ert alla jafna fullklædd/ur og ferð ekki úr peysunni nema það sé hlýrra en 20 gráður.
Þér finnst orðið gaman að bíða eftir afgreiðslu hjá opinberum stofnunum og bönkum. Þú lítur á biðina sem kærkomna stund til að gera nákvæmlega ekki neitt.
Ef þú ferð á ströndina, sem gerist orðið sjaldan, þá leitarðu uppi klappir og steina til að leggjast á í stað þess að baka þig í sandinum.
Latínó tónlist er komin á playlistann.
Þér finnst máltíð sem kostar meira en 10 evrur vera dýr.
Hárið á þér, sem var áður ljóst, er orðið gult.
Þú fylgist ekki lengur með snappinu hjá Tene- Svala því líf þitt er fyrir löngu orðið nógu sólríkt.
Ef þú kemur ekki hlutunum í verk fyrir hádegi þá finnst þér ekki taka því að gera þá þann daginn og geymir verkið til morguns.
Þú býður vinum þínum aldrei heim heldur hittist þið eingöngu á börum, kaffihúsum eða á grillsvæðum úti í skógi.
Þú ert hætt/ur að maka á þig sólarvörn í tíma og ótíma, enda dvelurðu aldrei lengur en 20 mínútur í senn í beinni sól.
Ath: Þessi listi er ekki byggður á neinum rannsóknum og er bara settur saman til gamans og notist sem slíkur.
Comments