top of page
Search

10 hlutir sem gaman er að upplifa á Kanarí

Updated: Apr 26, 2023

Eyjan Gran Canaria er með eitt besta veðurfar í heimi en þar fyrir utan býr hún yfir mikilli náttúrufegurð. Framboð af afþreyingu og þjónustu við ferðamenn er stöðugt allan ársins hring og eyjan því frábær að heimsækja, sama hvaða árstími er. Hér er hugmyndalisti yfir atriði sem gaman er að upplifa á þessari fallegu eyju en fleiri hugmyndir má finna í bókinni Komdu með til Kanarí.




1. Gista í helli

Áður fyrr notuðu íbúar Gran Canaria hella sem hýbýli og gera sum staðar enn, enda henta þeir vel til búsetu. Sumir þessara hella eru manngerðir en aðrir hafa orðið til í eldgosum og geta ferðamenn skoðað marga þeirra. Í Barranco de Guayadeque er að finna nokkra veitingastaði í hellum og þá er hægt að bóka gistingu í hellahúsum , t.d. í þorpinu Artenara.



2. Drekka kanarískt kaffi

Stærstu kaffiekrur Evrópu eru á Gran Canaria og það er því tilvalið að leggja leið sína í kaffidalinn Valle de Agaete þar sem um 40 bændur rækta og mala eigin uppskeru. Kaffiunnendur geta fræðst um feril kaffibaunarinnar á nokkrum stöðum, frá grænu beri á kaffiplöntu þar til búið er að mala kaffið og hella upp á.



3. Verða ástfangin(n) af „Litlu Feneyjum“

Strandbærinn Puerto de Mogán er oft nefndur Litlu Feneyjar vegna rómantískrar stemmingar sem einkennir bæinn og síkjanna á hafnarsvæðinu. Draumkennd ásýnd bæjarins setur hann í flokk með fallegustu stöðum eyjunnar.



4. Ganga kanaríska Jakobsveginn

Gran Canaria á sína eigin pílagrímaleið sem hægt er að ganga á þremur til fjórum dögum. Gengið er yfir eyjuna, frá suðurhlutanum til norðurs og endað í bænum Galdár. Leiðin er 66 - 73 km löng. Stimplum er safnað á leiðinni og hægt að fá viðurkenningarskjal að göngu lokinni.



5. Smakka sætan blóðmör

Morcilla er pylsa sem búin er til úr svínablóði og minnir að mörgu leyti á íslenskan blóðmör í útliti. Bragðið er hins vegar eitthvað allt annað, dísætt og áhugavert.



6. Fara í útreiðatúr á úlfalda

Kameldýr voru áður mikið notuð við landbúnað á Kanaríeyjum þar sem þau þóttu þola aðstæður þar mun betur en nautgripir og asnar. Enn eru þau sum staðar nýtt í landbúnað en flest eru þó notuð fyrir ferðamenn sem geta brugðið sér í útreiðatúr á úlfalda, t.d. í Þúsund pálma dalnum.



7. Hugleiða á sandöldunum

Dunas de Maspalomas er friðað svæði sem samanstendur af gylltum sandi sem fauk á land á síðustu ísöld. Tilvalið er að ganga um þessa auðn sem liggur á milli Ensku strandarinnar og Maspalomas en þar er auðvelt að ímynda sér hvernig er að vera staddur í eyðimörk. Gangan er ekki auðveld þar sem það reynir á að ganga í mjúkum sandi og enginn slóði er til að fylgja.



8. Heimsækja dýraathvarf

Cocodrillo Park er ekki hefðbundinn dýragarður heldur dýraathvarf. Flest dýrin sem þar eru til sýnis hefur lögreglan komið í athvarfið þar sem þeim hefur verið smyglað ólöglega til eyjunnar . Dýrunum eru ekki kennd nein brögð og brellur til að sýna gestum heldur er velferð þeirra í forgrunni.




9. Fara í Aloe vera dekur

Aloe vera plantan er mikið ræktuð á Kanaríeyjum og nýtt í allskonar snyrti- og heilsuvörur. Margar snyrtistofur bjóða upp á sérstakar Aloe Vera meðferðir en plantan hefur verið nýtt til lækninga bæði inn- og útvortis í þúsundir ára. Þá er gaman að heimsækja Aloe vera búgarða og kynnast þessari undraplöntu nánar.



10. Synda í sjávarlaug

Norðurströnd Gran Canaria er grýttari en suðurströndin og því færri sandstrendur þar að spóka sig á. Það aftrar heimamönnum hins vegar ekki við að fara í sjóinn því þeir nýta sér sjávarlaugar óspart. Það er gaman að leita þessar laugar uppi og prófa mismunandi laugar.




Fleiri hugmyndir má fá í bókinni Komdu með til Kanarí sem er á tilboði í vefversluninni lifiderferdalag.is fram til 1. júní 2023.




848 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page