top of page
Search

Að sækja um NIE á Tenerife

Updated: Mar 22, 2023

Útlendingar sem ætla sér að dvelja í lengri tíma á Tenerife verða fyrr en seinna að fá sér NIE (spænsk kennitala fyrir útlendinga). Ferlið er ekki kostnaðarsamt né sérlega flókið.

Fyrir utan Polica National, Costa Adeje, með NIE númerið.


Við fjölskyldan höfum nokkrum sinnum dvalið í lengri tíma á Kanaríeyjum. Hingað til hefur dugað okkur að heimilisfaðirinn hafi verið með NIE, meira að segja líka þegar dætur okkar voru einn skólavetur í spænskum skóla. Nýlega (apríl 2022) lét ég þó loks sjálf verða af því að sækja um NIE og hér fyrir neðan er lýsing á ferlinu sem vonandi styttir þeim sporin sem eru í sömu hugleiðingum á Tenerife.


Að hafa NIE (spænska kennitölu fyrir útlendinga) veitir engin réttindi á Spáni. Þetta er eingöngu skráningarnúmer fyrir einstaklinga í hinu opinbera kerfi sem nýtist t.d. þegar verið er að kaupa fasteign, sækja um bankareikning, til að fá farsíma- eða sjónvarpsáskriftir o.s.frv.



Svona lítur NIE út. Hvítt A4 blað með nafni og talnarunu. NIE er stytting á Numero de Identificacion Extranjero, sem sagt kenntitölu fyrir útlendinga.


NIE er gefið út af lögreglunni Polica National. Á Tenerife er Polica National á fjórum stöðum: Costa Adeje (gula og rauða húsið fyrir neðan Siam Mall), Puerto de las Cruz, La Laguna og í Santa Cruz. Áður en covid faraldurinn skall á, þá mætti fólk á lögreglustöðina, tók þar númer og beið eftir að röðin kæmi að þeim. Eftir covid hefur hins vegar þurft að panta tíma fyrirfram á netinu. Ég pantaði tíma á lögreglustöðinni á Costa Adeje með því að senda þeim póst á ensku á netfangið adeje.citaudex@policia.es . Ég fékk svar daginn eftir og tíma úthlutuðum um viku seinna.


Áður en ég mætti undirbjó ég umsóknina en nauðsynlegt er að hafa eftirfarandi meðferðis:

  • Vegabréf

  • Ljósrit af vegabréfi

  • Eyðublaðið EX-15 útfyllt.

  • Eyðublaðið Modelo 790 útfyllt og stimplað af banka.

Eyðublöðin tvö, EX-15 og Modelo 790 er hægt að finna n á netinu. Eftir að hafa fyllt þau út, þarf að prenta þau út. Athugið að eyðublöðin eru á spænsku og getur verið nokkuð snúið að fylla þau út ef engin er spænskukunnáttan. Með því að gefa sér góðan tíma í verkefnið og með hjálp google translate ætti það þó að hafast. Einhverjir hafa þýtt eyðublöðin á ensku og er hægt að finna slíkar útgáfur á netinu en nauðsynlegt er að nota spænsku útgáfuna í umsóknina, þó hægt sé að hafa þýðinguna til hliðsjónar. Þegar búið er að fylla blöðin út er farið í banka og greitt fyrir umsóknina nokkrar evrur en bankinn stimplar eyðublaðið 790 fyrir greiðslunni. Kostnaðurinn er um 10 evrur.


Nauðsynlegt er að hafa Cita Previa, þ.e.a.s. bókaðan tíma þegar sótt er um NIE.


Ég mætti stundvíslega á umsömdum tíma á lögreglustöðina með alla pappíra klára en þá var hópur af útlendingum þar í sömu erindagjörðum. Tíminn sem mér hafði verið úthlutað hélt ég að væri tímabókun þar sem starfsmaðu sinnti mínu erindi á umsömdum tíma. Það var hinsvegar ekki raunin. Ég og allir aðrir sem mættir voru á lögreglustöðina þennan dag, sama í hvaða erindagjörðum, vorum látin bíða í hópi utandyra. Stöku sinnum kom starfsmaður út á tröppurnar á lögreglustöðinni og kallaði eitthvað upp og þá gaf einhver úr hópnum sig fram. Loks kom kona og spurði hvort einhver væri að sækja um NIE. Ég og fleiri úr hópnum gáfum okkur fram en fengum þó ekki að koma inn. Við urðum að rétta pappírana upp á tröppurnar til hennar þar sem hún yfirfór þá snögglega. Mér var vinsamlegast bent á að stimpillinn væri á röngum stað á minni umsókn og því var ekki tekið við henni.



Ljósritunarstofan umrædda sem er beint á móti lögreglustöðinni í Costa Adeje.


Nú voru góð ráð dýr. Ég vildi alls ekki fara heim og panta nýjan tíma. Ég hljóp því yfir götuna á ljósritunarstofu sem þar er og græjaði nýtt eyðublað í hvelli með aðstoð starfsmanns, hljóp með það í Caxia banka sem starfsmaður stofunnar benti mér á að væri vel inn í þessum málum (þar sem fyrri bankinn sem ég hafði farið í var það greinilega ekki), greiddi umsóknargjaldið og fékk nýjan stimpil. Síðan hljóp ég aftur í þvöguna á lögreglustöðinni og rétt náði athygli sama starfsmanns áður en síestan skall á. Í þetta sinn var tekið við umsókninni og mér sagt að koma aftur á lögreglustöðina tveimur dögum seinna á ákveðnum tíma til að sækja mína pappíra.


Tveimur dögum seinna kom ég aftur og þar sem ég hafði áttað mig á því hvernig kerfið virkaði beið ég öllu rólegri fyrir utan stöðina heldur en síðast. Þá var ég líka með nóg vatn meðferðis til að þola biðina. Þegar sama kona og tekið hafði við umsókninni kom út með möppu undir hendinni tróðst ég fram og reyndi að ná athygli hennar. Það tókst og hún rétti mér hvítt A4 blað með NIE númerinu. Blaðið geymi ég nú eins og sjáaldur auga míns því ef það týnist þá skilst mér að það þurfi að ganga í gegnum sama ferli til að þess að fá nýtt númer.



ATH: fyrir þá sem eru óöryggir með NIE umsóknina þá er hægt að fá aðstoð við að fylla hana út t.d. hjá túlkinum Minerva Iglesias, sem býr og starfar á Tenerife,og talar bæði spænsku, íslensku og ensku. Síminn hjá henni er +354 661 1523. Þá er hægt að senda póst á áðurnefnda ljósritunarstofu (sjá nafnspjald hér fyrir neðan) og er beint á móti lögreglustofunni og biðja um hjálp við að fylla umsóknina út. Senda þarf ljósrit af vegabréfinu, ásamt heimilisfangi á Tenerife og biðja þau um að fylla út 790 formið og EX-15. Síðan er farið þangað daginn eftir og pappírarnir sóttir. Athugið að starfssólk stofunnar talar frekar lélega ensku en einhvern vegin virðist þeim takast að finna út úr þessu öllu fyrir alla útlendinga sem þangað leita eftir aðstoð.


Vantar þig fleiri upplýsingar varðandi búsetu á Tenerife, Kanaríeyjum eða Spáni? Handbókin Nýtt líf á Spáni er með svör við flestu því sem Íslendingar sem hyggja á búferlaflutninga þurfa að hafa í huga. Bókin fæst HÉR, í Eymundsson og á veitingastaðnum Maspalomas Lago á Gran Canaria.



1,973 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page