top of page
Search
Writer's pictureSnaefridur Ingadottir

Nýr samastaður fyrir Íslendinga á Gran Canaria

Íslendingar hafa eignast nýtt athvarf á Gran Canaria þar sem þeir geta komið saman og gert sér glaðan dag. Staðurinn getur tekið allt að 440 manns í sæti og býður því upp á ýmsa möguleika.


Þessi mynd er tekin á prufuopnun á Restaurante Maspalomas Lago. Guðbjörg, rekstaraðili staðarins, er lengst til vinstri. Með henni á myndinni er eiginmaðurinn Viðar og fleira gott fólk sem aðstoðað hefur hana við að gera klárt fyrir opnun.


Margir Íslendingar kannast við Klörubar sem var félagsmiðstöð Íslendinga um árabil á Gran Canaria. Síðan Klörubar lokaði hafa Íslendingar á svæðinu ekki átt sambærilegan samastað en nú lítur út fyrir að það sé að breytast því Guðbjörg Bjarnadóttir hefur tekið yfir reksturinn á veitingastaðnum í Maspalomas Lago. Auk þess að bjóða upp á hefðbundar veitingar á borð við hamborgara, samlokur, egg og beikon o.fl. yfir daginn þá sér hún fyrir sér að þar verði haldnar ýmsar uppákomur sem höfða munu til Íslendinga á svæðinu. „Ég sé fyrir mér spennandi tíma fram undan og endalaus tækifæri til ýmiskonar félagsstarfs. Við getum verið með allt að 440 manns í sæti hér svo húsnæðið býður upp á marga möguleika,” segir Guðbjörg.


Auðveldlega verður hægt að slá upp þorrablóti og öðrum stærri skemmtunum á staðnum því staðurinn tekur um 440 manns í sæti.


Umræddur veitingastaður, Restaurante Maspalomas Lago, er inn í miðjum samnefndum íbúðakjarna. Í kjarnanum eru 119 búngalóar sem ýmist eru leigðir út eða eigendur þeirra búa þar meir og minna allt árið. Guðbjörg og maki hennar Viðar Sigurðsson, hafa átt hús í kjarnanum síðan 2016 en áður en þau keyptu það höfðu þau komið reglulega til Kanarí í um 20 ár. Þau hafa ferðast vítt og breytt um kanarísku eyjarnar en kunna afar vel við sig í Maspalomas Lago, eða svo vel að Guðbjörg ákvað að taka við rekstri veitingastaðarins sem þjónustar kjarnann þegar eftir því var leitað. Guðbjörg hefur fengist við ýmislegt um starfsævina. Hún var í verslunarrekstri í Grindavík, hefur fengist við tölvukennslu og lengi vel rak hún eigið bókhaldsfyrirtæki. Veitingarekstur er þó eitthvað sem er alveg nýtt fyrir henni en hún er spennt fyrir nýjum áskorunum, sem hafa reyndar verið nokkuð margar í aðdraganda opnunarinnar. „Ég er svolítið klikkuð að fara út í þetta, en ég vil hafa eitthvað að gera hérna,” segir Guðbjörg og viðurkennir að það hafi reynt á í ferlinu að tala ekki spænsku. „Spænskan kemur í hænuskrefum,” bætir Guðbjörg sem lætur málleysið ekki stoppa sig. Þá segist hún eiga góða vini á svæðinu sem hafi m.a. hjálpað til við þrif og annað í aðdraganda opnunarinnar en staðurinn var mjög skítugur eftir að hafa verið óstarfhæfur í covid. „Íslenska samfélagið og fólkið hér í kjarnanum hefur staðið vel við bakið á mér sem hefur verið ómetanlegt,”segir Guðbjörg þakklát. Þá segist hún finna fyrir auknum áhuga Íslendinga á því að leigja húsnæði í kjarnanum eftir að það spurðist út að íslenskur rekstaraðili hefði tekið yfir rekstri veitingastaðarins.


Veitingastaðurinn í Maspalomas Lago er vel staðsettur á aðalferðamannasvæði Gran Canaria. Staðurinn er að öllu jöfnu aðeins opinn yfir daginn nema ef sérstakir viðburðir eru á dagskrá. Guðbjörg býður alla ferðalanga sem eru á ferð um eyjuna í vetur velkomna á barinn hjá sér.



Spiladagar, súpa á laugardögum og íþróttaleikir

Veitingareksturinn fer þó rólega af stað, sem sé gott að sögn Guðbjargar, því það gefi henni smá aðlögunartíma áður en vetrarfuglarnir koma í haust. Guðbjörg segist sjá fyrir fyrir sér að bjóða upp á spiladaga, prjónahittinga, skákaðstöðu, útibú frá íslenska bókasafninu á minigolfvellinum og ýmislegt fleira í vetur. Þá er 75 tommu sjónvarpsskjár á staðnum þar sem verður hægt að horfa á íþróttaleiki og aðra stórviðburði á borð við Eurovision og fleira. Þá verður auðveldlega hægt að slá upp þorrablóti og öðrum stærri skemmtunum á staðnum en hún segir að tíminn verði bara í leiða í ljós hvernig starfssemin þróist. „Laugardagsmarkaðurinn er bara í fimm mínútna göngufjarlægð héðan. Á laugardögum er því kjörið að kíkja fyrst þangað og koma svo í laugardags súpu og brauð hjá mér á eftir,” segir Guðbjörg sem hlakkar til að taka á móti Íslendingum sem og öðrum farfuglum á veitingastaðnum í Maspalomas Lago. Hægt er að fylgjast með því sem er að gerast á staðnum á Facebook síðu staðarins Maspalomas Lago Restaurante



Guðbjörg sér fyrir sér að selja kleinur, rúgbrauð og annað sem Íslendingar sakna oft í útlöndum á barnum. Þá er hún einnig söluaðili fyrir handbókina um búsetu á Spáni og ferðamannahandbækurnar um Gran Canaria og Tenerife eftir Snæfríði Ingadóttur.



5,785 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page