Snaefridur Ingadottir
Ódýrasta leiðin til að koma sér í höfuðborg Tenerife
Updated: Feb 2
Frá suðurhluta Tenerife er ekki flókið að skella sér í dagsferð til höfuðborgarinnar Santa Cruz de Tenerife. Strætóferðir eru þangað oft á dag og svo er líka frír vagn í boði frá ferðamannasvæðinu fyrir þá sem ætla sér að versla í borginni.

Ódýrasti ferðamátinn til þess að komast frá suðurhluta eyjunnar og í höfuðborgina er með strætó, en daglegar strætóferðir eru í boði á vegum strætófyrirtækisis titsa. Leið 110 og leið 111 ganga báðar í borgina en aðalmunurinn á þessum tveimur leiðum er sú að ferðin með 110 tekur um 55 mínútur en sá vagn fer frá Costa Adeje skiptistöðinni og stoppar svo gott sem hvergi á leiðinni. 111 stoppar hinsvegar í Los Cristianos en endar líka á Costa Adeje Estación. 111 stoppar á fleiri stöðum á leiðinni og er því um 1,5 klst á leiðinni. Lokastopp beggja leiða í Santa Cruz er á aðalstöðinni, Intercambiador Sta.Cruz en þaðan er aðeins nokkra mínútna gangur í verslunarmiðstöðvarnar El Corte Inglés og Centro Comercial Meridiano. Nánari upplýsingar um leiðirnar fást inn á titsa.es
El Corte Inglés er verslunarmiðstöð með fínni merkjavöru eins og Ralph Lauren, Tommy Hilfiger, Furla, Guess o.s.frv. Í Centro Comercial Meridiano er að finna verslanir eins og Primark, Bershka, Levi´s ofl. Frá Intercambiador Sta.Cruz er hægt að skipta yfir í aðra vagna fyrir þá sem vilja skoða borgina nánar. Athugið að hvorug þessara verslunarmiðstöðva er opin á sunnudögum en þó eru gerðar undantekningar í kringum jólin. Í titsa strætisvagnana er hægt að kaupa stakt fargjald en veittur er 10% afsláttur ef keyptar eru báðar leiðir í einu. Ef strætóinn er notaður oftar en einu sinni er best að fjárfesta í svokölluð ten+ korti sem hægt er að kaupa víða. Nokkrar útgáfur eru í boði, dagskort, vikukort o.s.frv. Þá er í boði að kaupa strætómiða í gegnum appið ten+Móvil.

Önnur leið til að komast í höfuðborgina, sem hentar sérlega vel fyrir þá sem eru fyrst og fremst að fara þangað í verslunarferð, er að taka El Corté Inglés vagninn, sem er frír strætó sem gengur frá nokkrum af stærstu hótelunum á ferðamannasvæðinu. Strætóinn nær í fólk milli kl.9-10 á morgnana og heldur svo í borgina. Spyrjist fyrir á ykkar hóteli um nákvæmar tímasetningar en vagninn stoppar m.a á Bahía Princess, Iberstar Grand Hotel Anthelia, Hotel Olé Tropical, Hotel Sheraton o.fl. og keyrir beinustu leið í El Corté de Inglés.Vagninn fer tilbaka kl. 16 og til þess að komast með til baka þarf að sýna kvittun upp á kaup fyrir minns 10 evrur.
Í bókinni "Tenerife ævintýraeyjan" er sérkafli um höfuðborgina en þar er að finna ýmsar hugmyndir að því sem gaman er að sjá og skoða þar.