top of page
Search

5 bestu leiksvæðin á Tenerife (ókeypis)

Updated: Apr 9, 2023

Barnafjölskyldur hafa úr mörgum skemmtilegum leiksvæðum að velja á Tenerife. Þessi leiksvæði eru oft með spennandi leiktækjum sem ekki finnast á Íslandi. Hér er listi yfir skemmtilegustu ókeypis leiksvæðin á Tenerife.

El Laurel leiksvæðið í Puerto de la Cruz er skemmtilega hannað.


Þessi garður er sérlega skemmtilegur fyrir yngstu börnin. Til að mynda er í garðinum aparóla, klifurveggur og áhugavert sjónhverfingatæki. Unglingarnir geta slakað á í hengirúmum eða risarólu. Þá er tilvalið að taka reiðhjól eða hlaupahjól með fyrir þau yngstu sem eru að læra að hjóla því það er merkt hjólaleið til æfinga í garðinum. Þá eru þarna borð og bekkir fyrirr gesti svo það er tilvalið að taka með nesti.

Það er sniðugt að taka með nesti á El Laurel leiksvæðið enda góð nestisaðastaða þar.

Flott leiksvæði er í García Sanabría garðinum. Tvö kaffihús eru í garðinum.


Parque García Sanabría í höfuðborginni Santa Cruz de Tenerife

Þessi almenningsgarður í miðborg Santa Cruz er í sérstöku uppáhaldi hjá okkar fjölskyldu og við fáum aldrei leið á honum. Í garðinum eru skemmtileg leiktæki, listaverk sem gaman er að skoða, spennandi framandi plöntur, og klukka úr blómum. Ekki gleyma að skoða tjarnirnar vel, því þar leynast kvakandi froskar. Garðurinn er sannkölluð vin í höfuðborginni og tilvalið að slaka þar á eftir verslunarferð. Þá er kaffihús á tveimur stöðum í garðinum.

Heimsókn í García Sanabría garðinn er eitt ævintýri.

Klifurveggurinn dregur marga í La Vega garðinn.


Parque de La Vega í La Laguna

Takið hjólabrettið eða hlaupahjólin með í þennan garð! Eða borðtennisspaðana því það eru líka útiborðtennisborð þarna. La Vega garðurinn er með römpum, körfuboltavelli, klifurvegg og alls konar leiktækjum. Þá er fjölbreytt fuglalíf í garðinum sem gaman er að skoða.

Hjólabretti og hlaupahjól eru velkomin í La Vega garðinn.

Rennibrautin á hólnum í miðbæ Playa San Juan er skemmtileg.


Leiksvæði í Playa San Juan

Við Plaza Eulogia González Taima sem er á horni Av. Reina Sofia og Av. Juan Carlos I í bænum Playa San Juan er gott útileiksvæði. Hönnun svæðisins er skemmtileg ekki síst vegna þess að nokkrir veitingastaðir og kaffihús snúa að torginu þannig að foreldrar geta notið þess að tylla sér niður og njóta veitinga á meðan börnin hlaupa um og leika sér. Meðal þess sem er á svæðinu er rólur, hringekja og brekka með gervigrasi með skemmtilegri rennibraut.

Skemmtilegt fjölskylduvænt torg í Playa San Juan.

Mynd: Heimasíða verslunarmiðstöðvarinnar C.C Parque Santiago


C.C Parque Santiago 6í Los Cristianos

Verslunarmiðstöðin C.C Parque Santiago 6 í Los Cristianos er með frábært útileiksvæði fyrir börn. Ekki spillir fyrir að það er frítt að leika þar og foreldrarnir geta líka tyllt sér niður á útikaffihúsið með kaffibolla eða drykk og fylgst með börnunum leika. Þá er frítt wifi á staðnum.Ath: Listinn er byggður á persónulegu mati okkar hjóna, sem ferðast höfum til Tenerife undanfarin 10 ár með þrjú börn á aldrinum 1-14 ára. Það er líka til fullt af skemmtilegum leiksvæðum sem kostar inn á en þau eru ekki með í þessari upptalningu.


Fleiri fjölskylduvænar hugmyndir má finna í Tenerife krakkabókinni

680 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page