Nú eru sex veitinga- og skemmtistaðir í rekstri Íslendinga á Tenerife. Þar af eru þrír í eigu sömu eiganda. Allir eru staðirnir á ferðamannasvæðinu á suðurhluta eyjunnar.
Árið 2019 tók ég saman lista yfir veitinga- og skemmtistaðir í eigu Íslendinga á Tenerife fyrir Morgunblaðið. Listinn hefur breyst töluvert á þessum tveimur árum, tveir staðir hafa dottið út (El Paso og Bar-Inn) en þrír aðrir hafa komið inn í staðinn (Smoke Bro´s, Mister Sister og Backyard Lounge). Þá hefur verið sagt frá því í fjölmiðlum að The Skyr factory sé að undirbúa opnun á skyrbar á Tenerife.
Eftirfarandi staðir eru nú í eigu Íslendinga á Tenerife:
Backyard Lounge
Backyard Lounge, opnaði í október 2021 og er til húsa á neðstu hæð verslunarmiðstöðvarinnar The Duke shops á Costa Adeje. Staðurinn er í um 15 mín göngufjarlægð frá einni fallegustu strönd Tenerife, Playa del Duque. Þá tekur svipaðan tíma að ganga þangað frá hinni vinsælu Fanabe strönd. Kaffibolli og crossant á morgnana, heilsusamlegir réttir yfir daginn og kokteilar á kvöldin er það sem er í boði á staðnum. Rglulega er líka boðið upp á lifandi tónlistaratriði á staðnum á kvöldin. Það eru hjónin Það eru hjónin Drífa Björk Linnet og Haraldur Logi Hrafnkelsson sem eru eigendur staðarins.
Mynd: Facebooksíða Backyard Lounge
St Eugen´s
St Eugens er einn flottasti sportbar eyjunnar með 18 risaskjám inni og 5 fermetra sjónvarpi á útisvæði. Staðurinn er risastór, með leyfi fyrir 400 manns. Auk þess að sýna alla landsleiki er skemmtidagskrá á hverju kvöldi. Pétur Jóhann var t.d. með uppstand á staðnum í kringum síðustu jól. Heimilisfangið er Av. de los Pueblos 13, rétt við San Eugenio verslunarmiðstöðina. Eigendur staðarins eru þeir Níels Hafsteinsson og Magnús Árni Gunnarsson(Maggi plötusnúður).
Mynd: Facebooksíða St. Eugens
Nostalgía - íslenski barinn
Nostalgía er elsti barinn á Tenerife sem er í eigu Íslendinga en hann opnaði árið 2016. Staðurinn heldur í íslenskar hefðir og hefur t.d. boðið upp á skötu á þorláksmessu og hangikjöt um jólin. Þá er reglulega hægt að fá þar fisk og rjómapönnukökur. Ýmis skemmtikvöld eru haldin á staðnum; karókí, spilakvöld og landsleikir sýndir en best er að fylgjast með dagskránni á facebooksíðu staðarins. Nostalgía er í gömlu klaustri við Calle Eguenio Domínguez Alfonso. Best er að finna ströndina Playa del Bobo og horfa þar í kringum sig eftir gulri byggingu með rauðum turni, inn í henni miðri er barinn. Eigendur Nostalgíu eru hjónin Herdís Árnadóttir og Sævar Lúðvíksson.
Mynd: Snæfríður Ingadóttir/lifiderferdalag.is
Bambú bar & bistro
Bambú er kósý staður við Pinta ströndina sem býður upp á einfalda og holla rétti sem og alls konar kokteila. Matseðillinn er á íslensku. Plöntur, sófar og bambus eru áberandi í innréttingum staðarins. Lifandi tónlist á hverju kvöldi og oft mikið stuð. Fygist með dagskránni á Facebook síðu staðarins. Eigandi staðarins er Halla Birgisdóttir en hún opnaði hann árið 2019. Hér má sjá viðtal sem ég tók við Höllu árið sem hún opnaði staðinn. Til þess að finna staðinn er best er að finna hótelið La Pinta við Av. de España og ganga neðan við það.
Mynd: Snæfríður Ingadóttir/lifiderferdalag.is
The Mister Sister Showbar
Hér er boðið upp á mat og alvöru "show" á hverju kvöldi og jafnvel stundum lifandi tónlist að deginum til. Barinn er kenndur við breska draglistamanninn Mister Sister sem er margverðlaunaður en hann skemmtir á barnum öll kvöld ásamt öðrum atriðum. Fylgist með dagskránni á Facebook síðu staðarins. Það eru Níels Hafsteinsson og Magnús Árni Gunnarsson sem eiga þennan stað en þeir reka líka, St, Eugens og Smoke bro´s. The Mister Sister Showbar er einnig þekktur undir nafninu First and Last Drink og er við Fanabe ströndina nánar tiltekið við Calle Roma 4.
Mynd: Facebooksíða Mister Sister Showbar
Smoke bro´s
Þessi veitingastaður opnaði rétt fyrir áramótin 2021 og er í eigu Níels Hafsteinssonar og Magnúsar Árna Gunnarssonar sem fyrir reka tvo skemmtistaði á Tenerife. Þetta er fyrst og fremst veitingastaður, sem er með sæti fyrir 60 manns, en þó er vel hægt að detta þarna inn í drykk en staðurinn býður upp á fushion kokteila. Staðurinn er í Los Cristianos í CC Mencey verslunarkjarnanum. Sjá nánar um staðinn hér.
Mynd: Facebooksíða Smoke bro´s
Fleiri upplýsingar um Tenerife má finna í handbókunum Ævintýraeyjan Tenerife og Tenerife krakkabókin. Bækurnar fást í Eymundsson og í vefversluninni lifiderferdalag.is
Comments