top of page
Search

Enn betri þrautir og zip-línur

Þrautagarðurinn Forestal Park á Tenerife hefur fengið alls herjar andlitslyftingu í covid og býður nú upp á enn skemmtilegri zip-línur og þrautabrautir.
Áður voru aðeins tvær þrautabrautir í boði í garðinum, family trail og sports trail, en nú eru brautirnar orðnar sjö talsins. Þær eru á fjórum mismunandi erfiðleikastigum svo allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þrautirnar eru mjög fjölbreyttar og í mismunandi hæð.

Garðurinn minnir að sumu leyti á Adrenalíngarðinn á Íslandi nema hann er mun stærri og þrautirnar eru uppsettar inni í skógi. Þrautabrautirnar liggja á milli trjánna og enda yfirleitt í zip línu sem kemur manni aftur niður á jörðina.Bóka þarf tíma í garðinn en opnunartímar eru mismunandi eftir árstíma. Gott er að vera kominn í garðinn um 30 mínútur fyrir bókaðan tíma því það þarf að fylla út pappíra, klæða sig í belti og fá hjálm. Fyrst fara gestir í gegnum stutta kennslubraut með kennara til þess að læra á öryggisbúnaðinn og hvernig ferðast er eftir brautunum. Þegar það er komið á hreint velja gestir sér brautir við hæfi og hafa 3 klst til þess að leika sér í garðinum.Garðurinn er afar vel upp settur og starfsfólkið er vingjarnlegt og talar góða ensku. Ef gestir lenda í vanda eru starfsmenn á vappi og hægt að kalla í þá, en annars fara gestir í gegnum garðinn á eigin vegum og eftir hentugleika.

Í heildina er Forestal Park frábært ævintýri fyrir alla fjölskylduna en börn verða að hafa náð 110 cm hæð til þess að geta farið í auðveldustu brautirnar. Þá hentar garðurinn ekki síður fyrir þá sem vilja virkilega fá adrenalínið til að flæða og reyna á sig því svarta brautin er mjög krefjandi og alls ekki fyrir lofthrædda.

Garðurinn liggur við veginn TF-24 sem liggur í Teide þjóðgarðinn svo það má sameina heimsókn í þjóðgarðinn við ferð í þennan skemmtilega þrautagarð. Nauðsynlegt er að vera vel klæddur fyrir þetta ævintýri þar sem garðurinn liggur í um 1400 m hæð. Síðar buxur, hlý peysa, þunnur regnjakki, húfa, fingravettlingar og íþróttaskór er heppilegur klæðnaður en á heimasíðu Forestal park er að finna góðan tékklista fyrir gesti.


Fleiri skemmtilegar hugmyndir af afþreyingu á Tenerife fást í Tenerife krakkabókin og í bókinni Ævintýraeyjan Tenerife.

433 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page